148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[18:51]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á málefnum Listaháskólans. Það er rétt, sem kemur fram í máli hv. þingmanns, að aðstaðan er erfið í Listaháskólanum núna. Þess vegna höfum við verið að setja aukafjármuni í að flytja starfsemina í Laugarnesið. Við erum líka á lokametrunum í þarfagreiningu er varðar framtíðarhúsnæði Listaháskólans.

Mér finnst það mjög miklu máli skipta að málefni Listaháskólans verði í góðum farvegi í framtíðinni. Einn stærsti vaxtarbroddurinn er varðar ný atvinnutækifæri er í skapandi greinum. Við erum að ná alveg gríðarlegum árangri hvað það varðar. Umgjörðin í kringum Listaháskólann verður að vera betri og metnaðarfyllri. Við erum hins vegar að flytja mestan hluta starfseminnar inn í Laugarnes þessa dagana og mér finnst starfsfólk skólans og nemendur vera mjög metnaðarfull hvað varðar framtíð skólans.

Við erum á lokametrunum er varðar þarfagreiningu í framtíðinni. Ég hlakka til að sjá hvað kemur út úr því.