148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[18:57]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þingsályktunartillögunni sem boðuð er um að setja íslenskuna í öndvegi. Við erum á lokametrunum að klára þá þingsályktunartillögu og ég hlakka til þess að deila henni með hv. þingmanni og þeirri áherslu sem við setjum þar fram.

Ég vil nefna það um málefnasvið 18 að það er aðhaldskrafa á það svið eins og hv. þingmaður nefnir réttilega. Við höfum ekki útfært það. Hins vegar er það svo að þrátt fyrir að það sé einhver lækkun þá er í raun og veru líka um að ræða ákveðna hækkun eins og ég hef nefnt, þegar við afnemum virðisaukaskattinn á bókaútgáfu, þegar við lækkum virðisaukaskattinn á fjölmiðla þannig að ég tel að þetta málefnasvið muni halda áfram að vaxa og dafna.

Varðandi menningarstarfsemi og aðgengi að menningu þá kemur fram í ríkisfjármálaáætluninni að við höfum hug á því að styðja við uppbyggingu menningarhúsa, annars vegar á Austurlandi og hins vegar í Norðvesturkjördæmi. Ég held að ég geti sagt að við munum sjá fyrstu skrefin í því, að við getum byggt upp menningarhús á þessu svæði. Um leið og við gerum það þá erum við auðvitað að auka aðgengi að menningarstarfsemi í þessum landshlutum.