148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[19:00]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að nefna afrek íslenska landsliðsins í knattspyrnu, bæði karla og kvenna. Auðvitað er það sögulegt að svona fámenn þjóð sé að senda landslið sitt í úrslitakeppnina, í heimsmeistarakeppnina í knattspyrnu og ég óska liðinu alls hins besta.

Varðandi þjóðarleikvang hefur umfangsmikil vinna átt sér stað hjá starfshópi og hann er að skila tillögum um það. Við erum í ráðuneytinu mínu að klára reglugerð um þjóðarleikvanga þannig að við erum svo sannarlega að sinna þessu mikilvæga verkefni. Það er auðvitað líka gert með það að leiðarljósi að auka aðgengi landsmanna að íþróttastarfsemi og það er rétt sem hv. þingmaður nefnir að það hefur reynst nokkuð erfitt að ná sér í miða á svona vinsæla knattspyrnuleiki vegna þess áhuga sem nú ríkir.