148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[19:04]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að fara yfir stöðu kennara og hvað starf þeirra er gríðarlega mikilvægt. Við erum hjartanlega sammála um það. Það er alveg ljóst að fara þarf í nokkuð róttækar aðgerðir til að bregðast við þessari þróun. Auðvitað vill maður heldur ekki alltaf vera í þeirri stöðu að vera að bregðast við einhverri neikvæðri þróun, en það er hins vegar staðan eins og hún er í dag. Það hafa komið inn á borð til mín sameiginlegar tillögur sambandsins, kennaraforystunnar, háskólastigsins, um hvað við þurfum að gera sem fyrstu skref. Ég er alveg sammála því sem kemur fram í máli hv. þingmanns að þetta snýr að launum. Það er orðinn mikill munur á framhaldsskólastiginu og grunnskólastiginu. Við verðum bara sem þjóð að taka á þessu í sameiningu.

Mig langar að aðeins að fara yfir þessar aðgerðir. Eitt af því sem við erum að skoða er launað vettvangsnám fimmta árið. Annað sem við erum að skoða er Lánasjóður íslenskra námsmanna. Getum við sett ákveðna hvata? Nú er heildarendurskoðun að eiga sér stað. Getum við sett hvata inn í kerfið okkar? Getum við komið með styrki? Við verðum að huga að því.

Allar menntarannsóknir sýna okkur að ef kennarinn er ánægður eru nemendur ánægðir og frammistaðan verður betri. Það var að koma út skýrsla OECD í mars þar sem kemur fram að því ánægðari sem kennarinn er því betri frammistaða er hjá nemendunum. Ég er því hjartanlega sammála hv. þingmanni um að þarna þurfum við öll að taka höndum saman ef þetta á að ganga upp hjá okkur sem þjóð.