148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[19:08]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um það hvernig hann nálgast þetta viðfangsefni og greiningu hans. Þetta er mikill vandi í íslensku samfélagi hvað varðar kvennastéttir og svo er annað sem hefur verið að gerast er að álagið á kennara hefur aukist gríðarlega.

Nú vorum við að klára greiningu á því hvernig menntastefnan, menntun fyrir alla, kemur út á grunnskólastiginu og eitt af því sem kemur fram er að kennarar telja að álag hafi verið að aukast og hafa tengt það þeirri stefnu, en það er samfélagsleg sátt um að við viljum hafa skólastefnuna þannig að allir hafi tækifæri á því að mennta sig og við eigum að mæta sérþörfum nemenda í almenna kerfinu. En þegar við erum að gera það þá verðum við að forgangsraða fjármunum þar sem álagið er mest. Það höfum við ekki verið að gera. Nágrannaþjóðir okkar hafa hins vegar gert það og ég tel að það sé löngu tímabært og við erum að fara í þá vegferð að ræða það af hreinskilni til þess að bæta stöðu og styrkja umgjörð kennara.