148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[19:19]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Vald þeirra sem fá úthlutað kvótum er töluvert og ákvarðanir þeirra geta varðað framtíð sjómanna, fiskvinnslufólks, fjölskyldna þeirra og heilu byggðarlaganna. Fyrir daga kvótakerfisins gátu ungir og framsæknir sjómenn hafið sína eigin útgerð án þess að spyrja kóng eða prest. Þeir þurftu jú vissulega að fjármagna kaup á báti og veiðarfærum en ekki kvóta. Nú eiga þeir ekki annan kost en að kaupa aflamark til eins árs, með öðrum orðum að leigja kvóta af þeim sem ríkið hefur úthlutað honum. Það leiguverð hefur þó verið með himinskautum. Samkvæmt upplýsingum Fiskistofu hefur verðið verið á milli 150–200 kr. fyrir kílóið af þorski á undanförnum misserum.

Til að jafna stöðu þeirra sem eru þegar í útgerð og þeirra sem hafa hug á að hefja útgerð þarf að gera úthlutun kvótanna sanngjarnari. Ein leiðin er sú, sem frændur okkar Færeyingar eru að þróa og jafnaðarmenn hafa löngum talað fyrir, þ.e. að kvótanum verði ekki öllum úthlutað til þeirra sem fengu hann í fyrra heldur hafi allir jafnan rétt á að leigja hann af eigendum auðlindarinnar sem er íslenska þjóðin. Útboð á þorskkvóta í Færeyjum skilaði leiguverði um 60 kr./kg. Það er 60% afsláttur frá leiguverði útgerðarmannanna sem eru að leigja frá sér kvóta. Alþingi á að sjálfsögðu að stöðva þann gjafagjörning að skipta viðbótaraflakvóta á milli kvótahafa og hefur tækifæri til þess með því að samþykkja frumvarp þess efnis sem nú er til umræðu í atvinnuveganefnd.

Það er ekki þannig að hér sé verið að hlaupa til og þetta sé eitthvað nýtt og lítið spekúlerað. Þetta er þriðja þingið þar sem þetta frumvarp er hjá atvinnuveganefnd. Þingið hefur þrisvar sinnum, þrjú þing, fjallað um málið. Og auðvitað er það réttlætismál, (Forseti hringir.) þegar þorskkvótinn er svo sterkur eins og hann er núna, að viðbótin sé höndluð með öðrum hætti en það sem fyrir er. Það er ekki verið að taka neitt af neinum, bara verið að gera nýliðun mögulega. Við gætum jafnvel ákveðið að binda þetta við byggðir landsins o.s.frv. Við getum farið öðruvísi með þessa viðbót en það sem fyrir er.