148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[19:22]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Það er hægt að fara með þetta með ýmsum hætti en við þurfum engu að síður að nálgast málið á þann veg að draga fram alla þætti sem snúa að breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu sjálfu. Það er alveg rétt að vald þeirra sem fara með veiðiheimildirnar er mikið. En ég segi að það er sömuleiðis mikið vald hjá stjórnmálamönnum sem ákveða með hvaða hætti þessu skuli skipað. Ég leyfi mér að fullyrða að uppboð á veiðiheimildum heilt yfir kann líka að raska tilveru fólks eða byggða ef það er ekki vel ígrundað og reynt að sjá fyrir með hvaða hætti það kemur fram gagnvart einstökum stöðum, einstökum útgerðum skipa, afkomu sjómanna og fjölskyldna þeirra.

Það eina sem ég er að benda á er að breytingum á þessu kerfi, sem hefur reynst okkur ágætlega allt frá árinu 1984, þó svo að margar og gríðarlega sársaukafullar breytingar hafi fylgt því, gríðarleg átök, fylgir áhætta. Það hefur óumdeilanlega skilað þjóðinni mjög góðu verki við gríðarlega vandasama vinnu sem varð að vinna í kjölfar þess að fiskstofnar urðu lélegri. Ef við ætlum að sameinast um að breyta þessu verðum við að gera það, samkvæmt mínum skilningi og minni afstöðu, með vel ígrunduðum hætti. Ég hef ekki séð enn þá, þó svo að ég hafi reynt að fylgjast með þessari atvinnugrein og umræðu um hana í langan tíma, skynsamlega útfærðar hugmyndir um með hvaða hætti sú grundvallarbreyting, þ.e. að bjóða upp kvóta, muni snerta byggðir og afkomu fólks um allt land.