148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[19:24]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Við ræðum áfram um fjármálaáætlun, nú um sjávarútvegs- og landbúnaðarkaflann. Ég ætla ekki að blanda mér í það sem var til umræðu hér síðast, þá myndi ég eyða öllum tímanum í það. En mig langar að tala um það sem kemur fram í áætluninni. Það er verið að tala um að Bandaríkjamarkaður hafi tekið upp sérstakar kröfur um rekjanleika hráefnis. Þessar verndunarkröfur verða teknar upp á fleiri mörkuðum með tímanum. Ég hef heyrt áhyggjur margra um þessi mál. Það tengist m.a. bæði rekjanleika og meðafla, sérstaklega í netaveiðum. Nú hefur í vetur MSC-vottun verið tekin af grásleppuveiðum vegna þess að það mældist of mikill meðafli. Það kom í ljós að ekki var vel að rannsóknunum staðið. Það finnst mér ljóður á þessu að málið sé ekki unnið það vel að reisn sé yfir því. Mig langar að spyrja ráðherrann hvort hann hafi skoðað þetta mál sérstaklega.

Svo er það í sambandi við grásleppuna líka: Mönnum finnst stofnmæling á grásleppu ekki vera raunhæf miðað við þá aðferð sem notuð er í flothólf. (Forseti hringir.) Tíminn er liðinn, ég kem meira inn á það í seinni ræðunni.