148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[19:29]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég er sammála ráðherranum í því að það þarf að vanda sig í þessum málum í alla enda. Þar þurfa sjómennirnir líka að vera með. Ég held að þeir séu það. Það hefur verið kvartað yfir því þeim megin að það vanti betri búnað til að skrá þetta niður í afladagbækur og hvernig sem það er gert.

En mig langar að koma aðeins inn á veiðigjöldin. Nú er verið að vinna að endurútreikningum á aðferðafræði í sambandi við þau. Sú reikniregla sem rann sitt skeið nú í haust var meingölluð að því leyti til að það er verið að reikna þetta aftur í tímann um tvö ár. Nú er verið að borga fyrir árið 2015. Það er mjög þungt í skauti vegna þess að 2015 var mjög gott ár en magurt ár í fyrra og hittiðfyrra, sérstaklega í fyrra. Það eru mjög ólíkir útgerðarflokkar í sjávarútvegi. Sem betur fer. Það er mjög misjafnt hvað hver útgerðarflokkur getur borið af veiðigjöldum. Mönnum finnst í smærri útgerðum þeir þurfa að bera jafn mikla byrði miðað við stærð og þeir stóru, þá sérstaklega í sambandi við uppsjávartegundirnar eins og þetta kemur út núna. Ég legg mikla áherslu á að menn vandi sig í þessari vinnu fyrir næstu ár þannig að allrar sanngirni sé gætt í þessum efnum. Allir útgerðarmenn sem ég þekki vilja borga veiðigjöld. Það fer enginn í launkofa með það. En það þarf að vera þannig að fyrirtækin beri það.