148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[19:31]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Já, það er alveg hárrétt að sjómenn hafa talað um að það vanti betri búnað til að skrá meðafla. Það er í smíðum app, nú verð ég að nota það hugtak, til að greiða fyrir því að þetta verði auðveldara viðfangs. Þetta er komið í stærstan hluta flotans en við þurfum að sjá betur fyrir því í smábátaflotanum, að útbúa þeim handhægari leiðir til að skrá afla. Það er í vinnslu.

Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að veiðigjöldin, eins og þau eru útfærð, eru á margan hátt gölluð að því leytinu til að það er æskilegra í mínum huga að kerfið sé nær okkur í tíma þegar verið er að leggja gjöldin á og reynt sé að mæla betur framlegð eða afkomu þeirra sem stunda greinina og reyna að leggja gjöldin á með tilliti til þess. Það liggur fyrir, þegar hér er rætt um mismunandi útgerðarflokka, að afkoma þeirra er misjöfn, það er hárrétt. En ég minni á skýrslu sem unnin var fyrir sjávarútvegsráðuneytið og atvinnuveganefnd þingsins sem Deloitte endurskoðunarskrifstofan vann og var kynnt núna í vetur. Hún sýnir svart á hvítu að afkoman er sú hin sama nánast sama hvaða útgerðarflokkur það er. Það er bara einfaldlega eftir því hversu stór veltan er hversu mikill afgangurinn er o.s.frv. En framlegðin af rekstrinum er bara mjög svipuð sem hlutfall.

Ég tek svo undir það að lokum með hv. þingmanni að menn verða að vanda sig við breytingar (Forseti hringir.) á þessu kerfi. Það er tvímælalaust mín afstaða.