148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[19:35]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningarnar. Þær voru nokkuð margar, ég skal reyna að komast yfir þær tiltölulega hratt. Hráakjötsmálið byrjaði í grunninn af þessum þunga árið 2002 þegar Evrópusambandið fór að þrýsta á íslensk stjórnvöld um að innleiða nýja matvælalöggjöf sem íslensk stjórnvöld höfðu samþykkt 1997 en var leidd í lög 1999. Þetta endaði með því að árið 2005 ákváðu stjórnvöld hér að taka upp viðræður við Evrópusambandið, það var samþykkt að innleiða í íslenskan rétt reglugerð nr. 89/662 sem laut að þessu efni. Hún tók gildi í nóvember árið 2011. Hún var innleidd með röngum hætti að mati EFTA-dómstólsins og því erum við í þeirri stöðu sem við erum í núna. Ég tel að við verðum að bregðast við með einhverjum hætti. Það er alveg hægt að bregðast við með ákveðnum hætti. Ef þetta stendur eins og það er þá þýðir það að Íslendingar þurfa töluverðan tíma til að leiða inn í sitt regluverk aðgerðir til að taka á móti þessum breytingum. Það er vel hægt. Það er hægt að gera hvort tveggja eins og nú er verið að gera með auknum fjárframlögum á árinu 2018–2019 til Matvælastofnunar. Sömuleiðis er hægt að skoða mögulegar leiðir til þess að auka gjaldtöku. Ég hef ekki skoðað það. Það eru ýmsar leiðir færar í þessu efni en hins vegar er algerlega klárt í mínum huga að þessi mál voru ekki undirbúin frá því að Evrópusambandið byrjaði að hnýta í Íslendinga árið 2011 þar til dómurinn féll í fyrrahaust, í nóvember. Það er ekki í boði að mínu mati að sitja núna aðgerðalaus í því að taka á móti þessum nýja veruleika. Við þurfum að eiga viðræður við Evrópusambandið um möguleika á breytingum á svokölluðum viðauka I (Forseti hringir.) og jafnframt huga að því með hvaða hætti við breytum regluverki okkar ef slíkar viðræður myndu ekki bera neinn árangur.