148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[19:47]
Horfa

Álfheiður Eymarsdóttir (P):

Herra forseti. Mér fannst ég ekki fá skýr svör við því hvað hafi breyst á þessum þremur og hálfa mánuði. Ég held að allar áætlanir og spár og jafnvel greining á stöðu og afkomu greinarinnar í heild hafi legið fyrir í desember og ekki breyst það mikið á þessum þremur og hálfa mánuði að það skýri þessa miklu lækkun. Þess vegna gerði ég bara ráð fyrir að frumvarp væri í smíðum og jafnvel komin hugmynd um hvernig þessu fyrirkomulagi verður breytt. Ég er alveg sammála því að það er stór galli á veiðigjöldunum, eins og þau eru útfærð núna, að þau séu rukkuð aftur í tímann.

Besta leiðin til að rukka í rauntíma og breyta þessu kerfi, eins og við breyttum staðgreiðslukerfi tekjuskatts á sínum tíma til að koma í veg fyrir sama vandamál, er hreinlega að leigja heimildirnar út og taka greiðsluna tímabundið fyrir fram af leigðum heimildum, hvort sem þær eru boðnar upp eða ekki. Ég bið aftur um svör við því hvað hafi breyst á þessum stutta tíma.

Með hvaða lýðræðislega hætti áætlar ráðherra að vinna veiðigjaldsnefndarinnar, sem er kannski dálítið í myrkri fyrir almenningi, að undirbúningi nýrrar löggjafar fari fram? Það er gríðarlega mikilvægt hvernig gjaldtaka af auðlindinni fer fram.