148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[19:52]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu og hefur verið í dag þingsályktunartillaga ríkisstjórnarinnar um fjármálaáætlun.

Mig langar að rýna aðeins í málefni landbúnaðarins. Eitt af fyrstu verkefnum ríkisstjórnarinnar var að bregðast við bráðavanda sauðfjárbænda. Veitt var 665 millj. kr. framlag í fjáraukalögum fyrir árið 2017. Afurðaverð hefur fallið um þriðjung vegna utanaðkomandi vanda. Þótt þetta hafi komið mörgum til góða eru fram undan stór verkefni við að efla og rétta af hlut einnar elstu og virtustu stéttar okkar lands. Greinin stendur frammi fyrir mikilli áskorun sem bregðast þarf við hratt og þá skiptir máli að heildstætt sé tekið á vandanum. Bændur hafa sjálfir komið fram með hugmyndir sem geta skipt miklu máli og er það þá okkar stjórnvalda að meta þær og gera að veruleika hugmynd þeirra um að stofna markaðsjöfnunarsjóð sem byggður er upp á fjármunum sem kæmu úr greininni sjálfri. Slíkur sjóður myndi mæta markaðsbrestum afurða og jafna sveiflur sem eru mjög viðkvæmar í sauðfjárrækt þar sem framleiðsluferlið er langt.

Það væri gaman að heyra hvernig hæstv. ráðherra líst á þessar hugmyndir. Framtíðarsýn stjórnvalda er m.a. að mótuð verði matvælastefna. Því ber að fagna. Stefnan verður nýtt til að innleiða áherslur stjórnvalda fyrir atvinnulíf og þróun, uppbyggingu atvinnulífs og hagsmuni neytenda. Þarna er horft til framtíðar, hvernig við viljum sjá þessari mikilvægu matvælaframleiðslu borgið. Sauðfjárframleiðsla hér á landi á að skora hátt í samanburði við innfluttar afurðir, hvort sem við erum að tala um hreinleika eða gæði og ekki síst ef við horfum til kolefnisspors sem við höfum þegar sem þjóð lofað að standa okkur í.

Til að Ísland geti orðið leiðandi í framleiðslu á heilnæmum afurðum þarf að tryggja vernd og sjálfbærni bústofna.