148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[19:56]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort ég á að taka undir með landbúnaðarráðherra þegar hann segir að vandi sauðfjárbænda sé ærinn. Það fer eftir því hvernig á það er litið.

Nú langar mig að varpa ljósi á fiskeldið og hversu miklu máli sú atvinnugrein skiptir í atvinnuuppbyggingu á þeim landsvæðum sem hafa verið í vörn. Þessi atvinnugrein þarf að fá að vaxa og dafna samhliða því sem þarf að byggja upp, náttúrlega með ýtrustu varúð, í samræmi við ráðgjöf vísindamanna, með virðingu fyrir náttúru og þeim villta laxastofni sem hér er við land. Mikilvægt er að þróa eldisaðferðir sem henta aðstæðunum hér. Í stefnumótun um fiskeldi er gert ráð fyrir að heimilt verði að leggja á auðlindagjald vegna útgefinna rekstrarleyfa í sjókvíaeldi.

Samhliða því að uppbygging fiskeldis á sér stað sjáum við væntingavísitölu stíga á stöðum þar sem hún hefur verið í algjörri ládeyðu. Þetta hefur áhrif á allt lífríki, bæði á sjó og landi ef svo má segja.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort og hvernig hann sjái fyrir sér þjóðhagsleg áhrif í tekjum af eldinu og hvernig þær komi til með að skila sér í málaflokkinn aftur, þá með rannsóknum og uppbyggingu.

Í fjármálaáætlun er lögð áhersla á að styðja við verðmætasköpun og stuðla að heilbrigðum rekstrarskilyrðum í sjávarútvegi. Það hefst best með því að leyfa fjölbreytni að ráða. Því skiptir miklu máli að styðja við smáar og meðalstórar útgerðir. Nýliðun í greininni er mikilvæg og styður við byggðastefnu á viðkvæmum stöðum á landinu. Í þessu sambandi má nefna strandveiðar og ég ætla líka að nefna að við þurfum að fara varlega með veiðigjöldin. Þau eru stór þáttur sem skapa þarf sátt um og þau mega ekki verða of stór biti fyrir minni útgerðir þar sem þær skipta heilu byggðarlögin máli með alla sína afkomu og framtíð.