148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[20:06]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Það eru útúrsnúningar að halda því fram að við í Viðreisn ætlum að gjörbylta kerfinu. Ég undirstrika að kerfið, eins og það er byggt upp varðandi nýtingu og verðmætasköpun, er vel uppbyggt og við náum fram mikilli verðmætasköpun. Það er bara þessi stóri þáttur sem er eftir, þ.e. sanngjörn gjaldtaka, verðið fyrir aðganginn að auðlindinni. Þetta er takmörkuð auðlind sem við höfum veitt ákveðnum hópi einkarétt til þess að veiða.

Þrátt fyrir að við séum með þetta góða kerfi, stýringarkerfi, sem byggist á sjálfbærni, byggist á vísindalegri ráðgjöf, mun það springa framan í okkur ef stjórnmálaflokkar sýna ekki metnað, hvar sem er í litrófinu, til að ná sanngjarnri niðurstöðu varðandi innheimtu á gjaldi fyrir einkarétt á afnotarétti af auðlindinni. Þess vegna megum við stjórnmálamenn ekki gefast upp við að reyna að finna leiðir sem stuðla að því að við náum þeirri sanngjörnu gjaldtöku. Það er auðvitað að ákveðnu leyti afstætt, en það eru samt vísbendingar.

Allir flokkar í nefndinni á síðasta ári voru reiðubúnir til að fjalla um nýtingarsamninga. Allir flokkar nema einn flokkur, það var Sjálfstæðisflokkurinn sem hafði ekki enn ljáð máls á því að fara í nýtingarsamninga. Nýtingarsamningar — það er mikilvægt að halda því til haga — eru viðurkenning á því að fiskimiðin í kringum landið eru sameign þjóðarinnar eins og kveðið er á um í 1. gr. fiskveiðistjórnarlaga.

Það skiptir máli að við tökum þetta mál lengra út frá sjávarútveginum, út frá mikilvægi sjávarútvegsins í samfélaginu og út frá því að þjóðin skynji það og skilji að verið sé að uppfylla ákveðið réttlæti.

Þess vegna höfum við í Viðreisn lagt til að í stað þess að embættismenn ákveði hvert gjaldið eigi að vera tökum við alla vega hluta af kvótanum (Forseti hringir.) og setjum hann á markað. Það er betra að markaðurinn ráði gjaldinu en að það verði kontóristar, (Forseti hringir.) með fullri virðingu fyrir þeim, í sjávarútvegsráðuneytinu sem ákveði hvert hið sanngjarna gjald eigi að vera.