148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[20:19]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa spurningu. Það er raunar alveg með ólíkindum að hlýða á þingmann Miðflokksins tala með þeim hætti sem hér er gert. Hann ætti að líta yfir þingflokkinn sinn, hann var meira að segja sjálfur varaþingmaður Framsóknarflokksins, og íhuga og ganga úr skugga um það hversu stór hluti þingflokksins greiddi atkvæði með þessum sama tollasamningi eða kom að samningu hans. Þá ræddu menn þetta kannski á annan veg. Ég fullyrði að þegar samningurinn var gerður sáu allir þeir sem að komu og töluðu fyrir honum tækifærin sem í honum fólust.

Ég ætla að nefna það hér, vegna þess að hv. þingmaður segir að bændur komi ekki auga á þau tækifæri sem birtist þarna, að það liggur fyrir að verið er að flytja inn þúsund tonn af nautakjöti á ári hverju. Bændur í kúabúskap eru þegar byrjaðir að leggja drög að því með hvaða hætti þeir ætla að mæta þessu. Ég ætla bara að minna á það góða verk sem nú er unnið að Stóra-Ármóti í kjördæmi hv. þingmanns. Ég átti þess kost að ræða við þá bændur um daginn. Þeir sjá tækifæri í þessu efni, í því að taka stöðu með framleiðslu íslenskra bænda til að vinna á móti þeim innflutningi sem þarna liggur fyrir.