148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[20:26]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Það er alveg hárrétt að fjármálaáætlun fyrir árið gerir ekki ráð fyrir fjármagni til kaupa eða leigu á nýju sérhæfðu rannsóknarskipi í staðinn fyrir Bjarna Sæmundsson. Það er úr sér gengið skip á margan hátt, sú umræða hefur staðið lengi. Ég legg áherslu á að ég hef ekki hvikað frá þeirri skoðun sem ég hef sett fram, og sett inn í texta með fjármálaáætlun, að það er brýn nauðsyn á að þetta verði gert. Ég hef falið ráðuneytinu að fara að undirbúa það að leggja fram áætlanir um annars vegar kostnað og möguleika á smíði og hins vegar á leigu á sérhæfðu rannsóknarskipi að utan. Ég tel það brýnt og hef kallað eftir því að gert verði ráð fyrir því þegar fram líða stundir að okkur takist að endurnýja í það minnsta Bjarna, með öðrum hvorum hættinum.

Þegar rætt er um fjárframlög til Fiskistofu eða Hafrannsóknastofnunar minni ég á það, sem ég gat um í umræðunni fyrr á þessum fundi, að fjárveitingar til Hafrannsóknastofnunar hafa verið auknar, fjárveitingar til rannsókna. Það var gert í fjárlögum fyrir þetta ár og er gert ráð fyrir að þær fjárveitingar haldi sér. Með sama hætti vil ég nefna það sem ég gat um varðandi fiskeldi, og deili skoðunum með hv. þingmanni í því, að uppbyggingin á því mun kalla á aukna fjármuni. Ég nefndi það hér áðan, og hef gert það áður þegar ég lagði fram frumvarp um fiskeldi, að ég geri ráð fyrir að sá kostnaður sem þarna þarf að leggja í varðandi frekari rannsóknir og fleira því um líkt komi fram í gjaldtöku af greininni. Annars vegar með gjaldtöku fyrir eldissvæðin og hins vegar í svokölluðu auðlindagjaldi.

Ég ætlast ekki til þess að sjálfsaflafé þessara stofnana allra aukist alveg endalaust, (Forseti hringir.) en að sumu leyti má segja að starfsemi Fiskistofu sé að stórum hluta borin uppi af eigin tekjum, sjálfsaflafé.