148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[20:39]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég geri nú í stuttu máli grein fyrir fjármálaáætlun fyrir árin 2019–2023 varðandi það málefnasvið sem heyrir undir mig sem utanríkisráðherra. Helstu verkefni sem falla undir þetta málefnasvið eru utanríkisviðskipti, öryggis- og varnarmál, þróunarsamvinna, mannúðarmál, borgaraþjónusta og þjóðarréttur.

Það er hlutverk utanríkisþjónustunnar að gæta í hvívetna að hagsmunum lands og þjóðar á alþjóðavettvangi á sviði stjórnmála, viðskipta og menningar og veita skilvirka borgaraþjónustu. Utanríkisþjónusta Íslands er ein sú minnsta í Evrópu. Það kallar á forgangsröðun verkefna og hagkvæman rekstur. Breytt heimsmynd kallar á sífellda aðlögun í starfi utanríkisþjónustunnar, breytta forgangsröðun, skýrari stefnumótun og sveigjanleika í starfi.

Í skýrslunni Utanríkisþjónusta til framtíðar – Hagsmunagæsla í síbreytilegum heimi eru lagðar til 150 tillögur sem marka framtíðarsýn utanríkisþjónustunnar. Tillögurnar taka m.a. til mála á borð við staðsetningu sendiskrifstofa, nýtingu á mannafla, þá hefur jafnframt verið skoðað hvernig hægt er að hagræða í rekstri og jafnframt bæta þjónustu. Vinna við framkvæmd tillagnanna hófst síðastliðið haust og hefur 68 tillögum nú þegar verið hrint í framkvæmd og unnið er að innleiðingu annarra.

Á tímabilinu sem um ræðir er gert ráð fyrir auknum framlögum til utanríkismála samanborið við fjárlög yfirstandandi árs. Aukningin er fyrst og fremst komin til vegna þriggja þátta:

1. Stefnu ríkisstjórnarinnar þegar kemur að þróunarsamvinnu.

2. Skuldbindinga sem leiða af samstarfi um varnarmál.

3. Áherslu á að greiða fyrir framkvæmd EES-samningsins.

Af þessu vega aukin útgjöld í þróunarsamvinnu langsamlega þyngst. Gert er ráð fyrir að framlög til ýmissa annarra mikilvægra verkefna ýmist standi í stað eða sæti aðhaldi á tímabilinu.

Eins og áður sagði er langsamlega stærsta hluta útgjaldaaukningarinnar að rekja til aukinna framlaga til opinberrar þróunarsamvinnu en aukin framlög til hennar eru í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Áætlunin gerir ráð fyrir að hlutverk framlaga til þróunarsamvinnu fari úr 0,26 í 0,35% af vergum þjóðartekjum fram til ársins 2022.

Utanríkisviðskipti eru mikilvægt verkefni utanríkisþjónustunnar. Gróft áætlað er um fjórðungi af framlögum til utanríkismála varið til utanríkisviðskipta. Meginmarkmið þessa verkefnis er að standa vörð um efnahags- og viðskiptahagsmuni Íslands erlendis. Á þessu sviði er eitt mikilvægasta verkefni íslenskra stjórnvalda um þessar mundir að tryggja hagsmuni Íslands við útgöngu Breta úr ESB. Markmiðið er fyrst og fremst að tryggja að íslenskir aðilar hafi greiðan aðgang að breskum mörkuðum en einnig stöðu íslenskra ríkisborgara í Bretlandi.

Í samræmi við sáttmála ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir auknum framlögum í fjármálaáætlun til að efla hagsmunagæslu fyrir Íslands hönd við framkvæmd EES-samningsins með því að styrkja stöðu fagráðuneyta og auka styrk sendiráðsins í Brussel.

Varðandi aukin útgjöld til öryggis- og varnarmála hafa varnaráætlanir Atlantshafsbandalagsins fyrir Norður-Atlantshaf verið endurskoðaðar eftir að umhverfi öryggismála breyttist í mars 2014 þegar Rússar hernámu hluta af Úkraínu á Krímskaga. Því er mikilvægt að tryggt sé að aðstaða og búnaður sé til staðar á Íslandi fyrir samstarf okkar við bandalagsþjóðir í varnarmálum. Stærstur hluti aukinna fjárframlaga til öryggis- og varnarmála fer í endurnýjun reksturs ratsjár á Íslandi. Aðrar minni breytingar sem áformaðar eru í framlögum til málefnisins snúa að borgaraþjónustu, framlögum til alþjóðastofnana og hefðbundnum verkefnum utanríkisþjónustunnar.

Ísland tekur á næsta ári við formennsku í Norðurskautsráðinu af Finnum og mun gegna henni í tvö ár. Formennskan verður meðal stærstu verkefna sem Ísland hefur tekið að sér á alþjóðavettvangi og mun krefjast mikils og vandaðs undirbúnings. Þá mun Ísland sinna formennsku í kjördæmi Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna hjá Alþjóðabankanum á sama árabili, gegna formennsku í Norrænu ráðherranefndinni og vera í formennsku í samstarfi norræna utanríkisráðherra og Eystrasaltsríkja árið 2019. Í fjármálaáætlun er gert ráð fyrir tímabundnu auknu fjárframlagi til utanríkismála á næstu árum vegna þessara átaksverkefna sem ég hef farið yfir og fleiri verkefna sem ekki gefst hér tími til að tíunda.

Um 12% af fjárheimildum utanríkisráðuneytis er varið í samningsbundið framlag til alþjóðastofnana. Þar munar mestu um framlög til uppbyggingarsjóðs EES og vaxa þau nokkuð á tímabilinu. Framlög til uppbyggingarsjóðs EES eru í eðli sínu sveiflukennd og þegar til lengri tíma er litið er ekki gert ráð fyrir raunaukningu. Að öðru leyti er ekki gert ráð fyrir teljandi breytingu á framlögum til alþjóðastofnana sem taka breytingum í takt við þjóðartekjur.

Mikilvægi borgaraþjónustu utanríkisþjónustunnar hefur vaxið á undanförnum árum með auknum fjölda Íslendinga erlendis. Yfir 40 þúsund íslenskir ríkisborgarar eru búsettir erlendis og Íslendingar búsettir hérlendis ferðast yfir 500 þúsund ferðir til útlanda á ári. Meginmarkmiðið með borgaraþjónustunni er að standa vörð um hag íslenskra borgara meðan þeir dvelja erlendis. Verkefnin eru margvísleg, allt frá því að útvega neyðarvegabréf til þess að skipuleggja umfangsmiklar aðgerðir vegna neyðarástands erlendis. Mikilvægt er að tryggja gott aðgengi vegabréfsáritana til handa þeim sem hafa áhuga á að heimsækja landið. Einnig að ekki verði um hindranir að ræða.

Ísland hefur átt víðtækt samstarf við nágrannaþjóð um þessa þjónustu, Dani, og notið velvildar þeirrar við framkvæmd hennar. Umfang þjónustunnar hefur hins vegar vaxið mikið á undanförnum árum og er útlit fyrir enn meiri vöxt á komandi misserum. Það er því viðbúið að Ísland þurfi að auka við þennan þátt utanríkisþjónustunnar. Í fjármálaáætlun er ekki gert ráð fyrir auknum útgjöldum vegna þessarar þjónustu. Starfshópur vinnur að kortlagningu umfangsins og gerð aðgerðaáætlunar um fjölgun áritana og afgreiðslna fyrir vegabréfsáritanir á Íslandi en þeirri vinnu verður lokið á morgun, þ.e. föstudag.

Mikilvægi utanríkismála á eftir að aukast enn meira á næstu árum. Nú er tækifæri fyrir okkur öll, hið opinbera, atvinnulífið og aðra (Forseti hringir.) sem hafa hagsmuna að gæta, að vinna saman svo að markmiðum okkar í utanríkismálum verði náð á næstu árum.