148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[20:44]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Alþjóðleg þróunarsamvinna er ein af meginstoðum íslenskrar utanríkisstefnu. Íslendingum ber að leggja ríkulega af mörkum til að taka þátt í því alþjóðlega verkefni að auka jafnrétti, draga úr hungri, fátækt, barnadauða og félagslegu ranglæti. Það er siðferðisleg skylda auðugrar þjóðar að hjálpa hinum fátækustu til sjálfshjálpar.

Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna hafa ríki heims samþykkt að 0,7% vergra þjóðartekna skuli renna til þróunarsamvinnu. Ísland hefur lengi verið eftirbátur þeirra ríkja sem við berum okkur helst saman við þegar kemur að framlögum til þróunarmála. Samkvæmt síðustu þróunaráætlun utanríkisráðuneytisins áttu framlög að hækka jafnt og þétt frá 0,26% upp í 0,42% árið 2016. Markmiðinu um 0,7% yrði náð árið 2019. Síðan hafa þrjár ríkisstjórnir komið og farið sem hafa hunsað þessa áætlun. Nú situr sú fjórða, ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, og enn og aftur er ekki farið eftir áætlun og einungis gert ráð fyrir að framlög hækki upp í 0,35% árið 2023. Það er bara helmingurinn af markmiði Sameinuðu þjóðanna. Við erum langöftust allra Norðurlandaþjóðanna í framlögum til þróunarverkefna.

Ég verð að viðurkenna að ég er undrandi. Ég bjóst við því að mínir kæru félagar í Vinstri grænum myndu sýna meiri metnað, meiri samhug, með þeim sem bágast standa í heiminum. Við erum auðug þjóð, herra forseti. Við eigum að vera í hópi þeirra ríkja sem leggja hlutfallslega mest til þróunarmála. Við eigum að vera fyrirmynd. Við getum það. Hjarta þjóðarinnar slær í þessa átt.

Ég skora á hæstv. utanríkisráðherra að gera nú af röggsemi betur og hafa sóma af.