148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[20:55]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góðar fyrirspurnir. Fyrst varðandi framboð til UNESCO: Ég skal bara viðurkenna að ég man ekki nákvæmlega töluna. Mig minnir að gert sé ráð fyrir að framboðið kosti 55 milljónir en það er algerlega án ábyrgðar. Síðan er meiri kostnaður ef við náum kjöri og þurfum að sinna því.

Varðandi varnarmálin, skipulagsbreytingar í ráðuneytinu, hvort þau kalli á aukinn kostnað: Það gerir það ekki. Þetta snýst fyrst og fremst um að við erum að endurvekja varnarmálaskrifstofuna. Það er bara partur af þeim skipulagsbreytingum sem þarf að fara í í kjölfar skýrslu um utanríkisþjónustu til framtíðar.

Varðandi viðskiptaþáttinn: Það er alveg rétt að við erum að forgangsraða hvað það varðar en við höfum í þessum áætlunum, þ.e. í skýrslu um utanríkisþjónustu til framtíðar, gert ráð fyrir núll vexti. Þetta snýst í þeim áætlunum um tilfærslur innan ráðuneytisins eins og hv. þingmaður þekkir, ákveðnum sendiskrifstofum var lokað, staðarráðnum starfsmönnum fjölgað á kostnað flutningsskyldra o.s.frv.

Ég náði ekki alveg hvað hv. þingmaður var að spyrja um varðandi Brexit. En varðandi þróunarsamvinnuna er það rétt hjá hv. þingmanni að þetta er gríðarlega mikil aukning. Það er eitt af því sem við leggjum upp með núna, og komum með þegar við komum með nýjar áherslur varðandi þróunarsamvinnuna, nákvæmlega hvernig best er að verja henni. Það hefur verið forgangsmál og verður áfram þegar kemur að hælisleitendum og neyðaraðstoð en þetta er auðvitað verulega mikil aukning, þúsundir milljóna, þrjú þúsund á tímabilinu. Það er eitt af því sem við erum að leggja upp með og munum bæði kynna fyrir þróunarsamvinnunefnd og auðvitað hv. utanríkismálanefnd og þinginu þegar þar að kemur.