148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[20:59]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Varðandi síðustu spurninguna þá get ég fullvissað hv. þingmann um að sá sem hér stendur er ekki að verða hótelstjóri. Þetta snýr að loftrýmisgæslu og kafbátaeftirliti, fyrst og fremst loftrýmisgæslunni; við þurfum að taka á móti þeim aðilum sem sinna því. Því miður hefur verið meiri þörf á því að sinna þessu eftirliti en áður. Við sinnum að sjálfsögðu skyldum okkar sem gistiríki þegar að því kemur. Þess vegna er þetta tilkomið.

Varðandi Þróunarsjóð EES þá þekkjum við þá sögu. Við gengum í EES og þá átti þetta að vera, ef ég man rétt, í fimm ár. Við ætluðum þarna að styrkja fátækustu ríki ESB sem þá voru, ef ég man rétt, Spánn, Portúgal, Ítalía og Grikkland. Síðan þegar ESB var stækkað til austurs tókum við Austur-Evrópuríkin og höfum raunar tekið ýmis ríki í gegnum tíðina. Þetta er styrkur til fátækustu ríkja ESB, það er ekkert öðruvísi. En það hefur svo sem nýst íslenskum aðilum líka og margt gott komið úr þessu. Þetta er auðvitað styrkur til Evrópusambandsins, það segir sig alveg sjálft.

Varðandi EES-samninginn: Það er skynsamlegt á þessum tímamótum að fara yfir — við höfum dreift því til þingmanna, og munum fara yfir það í utanríkismálanefnd — stöðuna varðandi EES-samninginn, þær áætlanir sem við erum með varðandi aukna hagsmunagæslu á því sviði. Við eigum auðvitað alltaf að fara yfir kosti og galla þessa fyrirkomulags.

Það er hins vegar ekkert annað í hendi en EES-samningurinn. Hann hefur reynst okkur mjög vel. Ég held að enginn vafi sé á því. Við eigum hins vegar að nýta kostina, sem við höfum ekki gert í okkar hagsmunagæslu. Það er eitthvað sem ég held að við getum gert betur og við erum með áætlanir um það. En eftir að Bretar fara út (Forseti hringir.) verða 45% af okkar viðskiptum (Forseti hringir.) við lönd á þessu svæði. Þessi samningur hefur reynst okkur vel og er afskaplega mikilvægur.