148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[21:04]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir athugasemdirnar. Fyrst aðeins varðandi varnarmálin. Það liggur alveg fyrir, hvort sem okkur líkar betur eða verr, að aðstæður í heiminum eru eins og við þekkjum. Allir þekkja hvaða breytingar urðu í okkar heimshluta og raunar víðar um heiminn eftir yfirtökuna á Krímskaga. Það snertir okkur. Það snertir okkur líka að í kringum landið séu komnir kafbátar sem við höfum ekki séð mjög lengi. Við þurfum að bregðast við því fyrir utan ýmsar aðrar ógnir, allt frá tölvuárásum og hryðjuverkaárásum. Okkur ber skylda til þess að gæta öryggis okkar borgara og við gerum það í samvinnu við bandalagsþjóðir okkar. Þess vegna er þetta tilkomið.

Ef við förum í formennsku 2021 í Strassborg verður því mætt með sérstökum hætti. Hins vegar er ekkert leyndarmál að við erum alltaf að leita hagkvæmustu leiða til að sinna hagsmunagæslu okkar, það liggur alveg fyrir. Í skýrslu um utanríkisþjónustu til framtíðar er bent á hið augljósa, einfaldlega það að heimsmyndin er að breytast að því leytinu til að við sjáum marga markaði sem eru að verða gríðarlega stórir. Ef við ætlum að halda hér lífskjörum og halda uppi þessari fjármálaáætlun verðum við að selja þessu fólki vörur og þjónustu. Það þýðir að við þurfum að forgangsraða til að reyna að mæta því og það er það sem við erum að gera í öllum okkar áætlunum.

Varðandi kostnaðinn við Brexit er það tekið ágætlega fram í skýrslu utanríkisráðherra sem við ræðum á morgun um kostnaðinn við sendiráðið í London. Stærsti hlutinn er það sem snýr að Brexit þó að kostnaðurinn fari ekki allur þegar Brexit lýkur, en við höfum ekki eyrnamerkt nákvæmlega hlutina í ráðuneytinu þegar kemur að Brexit-málinu. Auðvitað fer mikill tími af viðskiptaskrifstofunni og öðru slíku (Forseti hringir.) í að sinna því.