148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[21:22]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og fyrirspurnina. Þegar við erum að tala um þessa miklu fjármuni sem við setjum í þróunarsamvinnu, svo sem alltaf en sérstaklega þegar við sjáum þessa miklu fjármuni og þessa miklu hækkun, held ég að það kalli á meiri umræðu um það í þinginu hvernig við framkvæmum þetta. Ef við myndum tvöfalda þetta þá sýnist mér að við færum í — við erum að tala um svona 10 milljarða í viðbót á ári ef við færum upp í 0,7%, jafnvel meira, 13 milljarða. Það er gríðarleg aukning ef við ætlum að taka hana bara á einu ári. Við myndum ekki gera það öðruvísi en að vera búin að skoða það líka sérstaklega vel hvernig aðrar þjóðir framkvæma þetta. Það er það sem við erum að líta sérstaklega til núna.

Ég er þeirrar skoðunar að það sé engin ástæða fyrir okkur að finna upp hjólið. Það eru ákveðnir hlutir sem ég tel að við höfum gert mjög vel þegar kemur að þróunarmálum, bara reyndar í það heila mjög vel. Við erum síðan að koma til móts við þær athugasemdir sem við höfum fengið frá þessari alþjóðlegu eftirlitsstofnun. Í grunninn má segja að fyrir utan það sem við setjum í allra handa neyðaraðstoð þá erum við að kenna það sem við kunnum vel. Ég held að Háskóli Sameinuðu þjóðanna sé mjög góð hugmynd, fyrst er Jarðhitaskólinn stofnaður 1978, svo Sjávarútvegsskólinn, Landgræðsluskólinn og Jafnréttisskólinn. Ég hef verið við útskriftir og hitt þetta fólk sem er að útskrifast úr þessu námi og þetta er glæsilegt fólk sem er að fara með þekkingu frá okkur sem ég held að muni nýtast mjög vel í þeirra heimalöndum. Það er ekki sama hvernig þetta er gert og ég held að bæði til að fá góða sátt um þróunarmálin og til þess að það verði ekki of miklar sveiflur í þessu þurfum við að ræða þetta. Þegar vel gengur og þjóðarframleiðslan eykst mjög mikið þá er erfiðara að ná upp í prósenturnar þótt við setjum fleiri, fleiri milljarða í viðbót. Síðan skiptir máli að þegar harðnar á dalnum (Forseti hringir.) verði þetta ekki það fyrsta sem verði skorið niður. Ég held að þetta kalli á svolítið mikla umræðu og mjög mikilvægt að það verði gert.