148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[21:27]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Hv. þingmaður ræðir hér mjög mikilvæg mál sem eru tvenns konar, annars vegar samstarf Norðurlandanna og hins vegar öryggismálin. Netöryggismálin eru öryggis- og varnarmál. Það sem kom mér á óvart þegar ég tók við þessu embætti var ekki vilji Norðurlandanna til að starfa saman, ég vissi að það væri hlýhugur á milli, það eru allir sammála um það og það virðist ekki bara vera stjórnmálamennirnir heldur líka almenningur í þessum löndum, heldur er aukinn áhugi á enn frekara samstarfi á milli Norðurlandanna. Þar er ég alveg sammála, ég held að það sé lykilmál. Eitt af því sviðum þar sem menn vilja starfa betur saman og er algjörlega nauðsynlegt er öryggis- og varnarmálin. Menn gætu kannski haldið að það væri eitthvað öðruvísi með Finna og Svía af því að þeir eru ekki í Atlantshafsbandalaginu eins og hin Norðurlöndin, en svo er ekki. Finnar og Svíar eru nánustu samstarfsþjóðir Atlantshafsbandalagsins, taka þátt í flestum heræfingum og öðru slíku. Netöryggismál eru bara partur af þessu. Heimurinn breytist og það koma fram aðrar ógnanir.

Það kemur að vísu fram í áætluninni að gert er ráð fyrir aukningu frá 2018–2023 þegar kemur að öryggis- og varnarmálum og við höfum verið að bæta í það af augljósum ástæðum. En það snýr í raun ekki bara að þessu ráðuneyti heldur náttúrlega líka að dómsmálaráðuneytinu og fleiri ráðuneytum. Heimurinn er eins og hann er, hann er ekki eins og við myndum vilja hafa hann, og það er forgangsmál að gæta öryggis þegna okkar. Ógnirnar hafa breyst og við þurfum að mæta því. Það er afskaplega mikilvægt og gott að geta starfað með vinum okkar á Norðurlöndunum þegar að því kemur og öðrum bandalagsþjóðum okkar.