148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[21:29]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Ég ætla í þessu samtali við hæstv. utanríkisráðherra að gera stuttlega að umtalsefni tvo af mikilvægustu samningum sem við eigum við umheiminn, annars vegar samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og hins vegar varnarsamninginn við Bandaríkin. Ég vil lýsa ánægju minni með að Alþingi skuli hafa samþykkt beiðni mína og tólf annarra þingmanna um að utanríkisráðherra geri skýrslu um það sem kallað er kostir og gallar Evrópska efnahagssvæðisins. Það er nokkuð um liðið síðan síðasta veigamikla skýrslan af þessu tagi var gerð. Það hafa orðið miklar breytingar og hræringar innan Evrópusambandsins, umbylting í efnahagslífi Íslendinga, og út hefur komið mjög mikilvæg norsk skýrsla sem við höfum sem fyrirmynd. Það eru engar leiðbeiningar eða kröfur til ráðherra í þessari skýrslubeiðni, ég ber fullt traust til ráðherra í því efni, að hann meti málið og umfang þess og felli það í þann farveg sem líklegastan má telja til þess að skýrslan verði góð og gagnleg og grundvöllur fyrir málefnalegri umræðu og stefnumótun fyrir Ísland í þessum mikilvæga málaflokki á komandi tíð.

Á hinn bóginn er samningur sem er okkur afar mikilvægur og utanríkispólitískt samband við Bandaríkin, samningurinn frá 1951 að sjálfsögðu, varnarsamningurinn. Á undanförnum árum hefur ýmislegt borið til tíðinda í samskiptum okkar Íslendinga og Bandaríkjanna, skemmst er að minnast brotthvarfs hersins og tengdra viðburða. Ég vil nota þetta tækifæri og spyrja hvernig ráðherra meti samband á milli þjóðanna eins og það er um þessar mundir og þá ekki síður hvaða aðgerðir hann álíti mögulegar til að efla það og styrkja, (Forseti hringir.) okkur og okkar bandamönnum til hagsbóta.