148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[21:34]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Ég þakka ráðherra fyrir svarið. Það er síst ofmælt að þeir tveir samningar sem hér um ræðir eru okkur Íslendingum afar mikilvægir. Það er mikilvægt að við greinum þá nýju stöðu sem er komin upp í Evrópu, líka út frá okkar íslensku hagsmunum, þannig að við séum í sem bestum færum til þess að gæta okkar hagsmuna á komandi tíð. Það eru umtalsverðar breytingar sem eiga sér stað á þessu máli á vettvangi Evrópusambandsins og miklar áskoranir sem við horfumst í augu við í framtíðinni.

Hvað varðar sambandið við Bandaríkin er það og hefur verið hornsteinn í okkar utanríkisstefnu. Ég vil nota þetta tækifæri og taka undir með ráðherra þegar hann segir að rætur þess og eðli sé miklu dýpra en svo að það skipti máli nákvæmlega hverjir manna ríkisstjórn Bandaríkjanna á hverjum tíma. Þetta samband hefur staðið af sér miklar sviptingar í gegnum áratugi. Það er ekki langt í að þetta verði orðinn 70 ára gamall samningur. Minnumst þess að fyrsta heimsókn forseta Íslands eftir að hann var kjörinn á Alþingi á Þingvöllum 17. júní 1944 var vestur um haf, til Washington, til fundar við Franklin Delano Roosevelt. Auðvitað var viðurkenning Bandaríkjanna á sjálfstæði Íslendinga forsenda fyrir stofnun lýðveldis hér á því ári.

Herra forseti. Ég ítreka þakkir mínar til ráðherra og ég tel varðandi þá skýrslubeiðni sem hér hefur verið gerð að umtalsefni að hún sé í mjög traustum og öruggum höndum hjá hæstv. ráðherra.