148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[21:46]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Það var komið við viðkvæman blett á hv. þingmanni. Hv. þingmaður verður bara að lifa með því. (Gripið fram í: Það er ýmislegt …) Ef það hefur farið fram hjá hv. þingmanni er þetta plagg lagt fram sem stefna ríkisstjórnarinnar. Það liggur alveg fyrir. Hv. þingmaður er kannski búin að vera svo stutt hérna að hún þekkir ekki leikreglurnar. (ÞKG: Ó, ó!) Það er bara reynsluleysið sem gerir það að verkum að þessar spurningar ganga fram eins og þið sjáið.

Hv. þingmaður hlustaði augljóslega ekki á það sem ég var að fara yfir. Ég fór yfir það að það sem við vitum er að innleiðingarhalli fór upp þegar við sóttum um aðild að Evrópusambandinu sem við hefðum aldrei átt að gera. Þá fór innleiðingarhallinn upp. Þá fór hagsmunagæslan niður. Þá tókum við út fulltrúana í Brussel frá fagráðuneytunum og við erum að taka aftur á því. Það er það sem við erum að gera, ég hvet hv. þingmann til að lesa skýrsluna. Þar er farið yfir það. Ég held að umræðan sé til komin vegna uppsafnaðra hluta sem tengjast því að ekki var byggt á tveggja stoða lausnum. Það er bara staðreynd. Áhugavert að heyra afturhaldið Viðreisn sem í fullri alvöru vill ganga í Evrópusambandið en þorir ekki að segja það sem myndi þýða að við yrðum að skerða okkar viðskiptafrelsi. Ég veit að hv. þingmenn eða forystumenn Viðreisnar kölluðu mig öllum illum nöfnum þegar ég upplýsti, úr gögnum sem voru vel falin í aðlögunarviðræðunum, hvað það þýddi fyrir okkar viðskiptastefnu ef við gengjum í Evrópusambandið. Það þýðir að verð myndi hækka á vörum sem eru framleiddar fyrir utan EES, tollvörum yrði fjölgað um nokkur hundruð og setja þyrfti upp tölvukerfi upp á að lágmarki 3,8 milljarða til að flækja tiltölulega einfalt viðskiptaumhverfi okkar.

Hvar er afturhaldið? Afturhaldið er hjá ESB-sinnunum. (Forseti hringir.) Þegar þeir eru endalaust með rangfærslur um EES-samninginn eru þeir ekki að gera neitt annað en að grafa undan honum. Það er alveg skýrt markmið hjá mér að koma staðreyndunum á framfæri og það mun ég gera. Ég skal alveg segja ykkur það, (Forseti hringir.) ég skal bara spá fyrir um það, að það mun fara illa í hv. þingmenn Viðreisnar sem eru með ESB-sýkina, (Gripið fram í.) þeir munu illa þola þetta. (ÞKG: Vó, ég er hrædd.)