148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[21:49]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Mér finnst eins og ég sé hálfgerð boðflenna [Hlátur í þingsal.] í einhverri gamalli innansveitarkróníku sem ég er ekki alveg nógu vel að mér í. Utanríkismál verða rædd sérstaklega hérna á morgun, en mig langar til að nota þær mínútur sem ég hef til að fara nokkrum orðum um Evrópustefnu ríkisstjórnarinnar.

Mér finnst stundum talað eins og Evrópa sé ekki á dagskrá og megi ekki vera á dagskrá, en hún er svo sannarlega á dagskrá hér í kvöld. Það er líka oft talað um Evrópusambandið eins og ríki sem ásælist völd á Íslandi en staðreyndin er þó sú að Evrópusambandið er tengslanet, það er samband, það er samráðsvettvangur fullvalda ríkja sem koma sér saman um fyrirkomulag á viðskiptum og samskiptum sín á milli í stað þess að valta hvert yfir annað með yfirgangi. Þetta er ein ástæðan fyrir því að friður hefur ríkt í þessum hluta Evrópu í yfir 70 ár. Lítil og fámenn ríki eins og Ísland þarfnast traustra bandamanna til að ná pólitískum markmiðum í utanríkismálum og treysta efnahag sinn og þau eiga allt undir því að reglur séu skýrar í samskiptum og virtar.

Samfylkingin hefur til margra ára talað fyrir því að hagsmunum almennings og fyrirtækja sé best borgið í þessu bandalagi. Að undanförnu hafa verið uppi raddir um að meta kosti þess að segja sig úr þessum vettvangi sem er kenndur við EES, mætti kannski kalla þessa hreyfingu Ísland úr EFTA – kjörin burt. Menn virðast sjá fyrir sér tvíhliða viðræður við bæði Bretland og hin ýmsu Evrópuríki, að ekki sé talað um Bandaríkin.

Ég ætla ekki að spyrja (Forseti hringir.) hæstv. utanríkisráðherra hvort hann hyggist styðja fulla aðild Íslendinga að ESB, en mig langar til að fá hann til að tala við mig um það hvort hann sé sammála því að EES sé framtíðarfyrirkomulag á samskiptum Íslendinga og Evrópusambandsins (Forseti hringir.) eða hvort hann sjái fyrir sér tvíhliða fyrirkomulag.