148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[21:51]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvaðan hv. þingmaður hefur hugmyndir sínar um stefnu ríkisstjórnarinnar. Við legðum ekki hér fram skýrslu og áætlun um hagsmunagæslu í EES ef við ætluðum að ganga út úr EES. Er það ekki frekar ljóst? Það er alveg hægt að fara þá leið, eins og sumir þó að ég hafi ekki séð hjá hv. þingmanni, a.m.k. ekki í þessari umræðu, að búa sér til einhvern veruleika og tala svo út frá honum. Ef við tölum bara út frá staðreyndum liggur alveg fyrir í hvaða vegferð við erum að fara. Það er kynnt, m.a. í skýrslu sem hv. þingmaður hefur undir höndum.

Evrópa ekki á dagskrá? Það liggur alveg fyrir að ef við ætlum að halda uppi lífskjörum í landinu þurfum við að auka útflutningsverðmæti um 1 milljarð á viku næstu 20 árin. Við munum ekki gera það innan Evrópu. Hv. þingmaður veit að ef við göngum inn í Evrópusambandið erum við að loka okkur af hvað varðar viðskipti. Það mun hækka hér verð á vörum sem eru fyrir utan Evrópusambandið, það liggur fyrir. Það þarf að fjölga hérna tollvörðum um nokkur hundruð. Það verður að setja að lágmarki milljarða, sambærilega upphæð og við setjum í Landhelgisgæsluna, bara í tollkerfi, tölvukerfi, til að flækja viðskiptaumhverfi okkar.

Evrópusambandið er ekki tengslanet. Það liggur alveg fyrir að forystumenn Evrópusambandsins, það er nóg að hitta einn, hafa það að markmiði að búa til sambandsríki Evrópu. Það er ekkert leyndarmál og um það hefur verið tekist á. Þess vegna eru menn að tala um þennan lýðræðishalla og þess vegna hefur Evrópusambandið m.a. lent í þeim vandræðum að mönnum finnist þeir ekki hafa áhrif á ákvarðanir sem eru teknar þar. Við tökum auðvitað pínulítið af þessu, við tökum 13% af gerðunum í gegnum EES-samninginn, en þetta væri allt annað mál ef við gengjum í ESB.

Á hvaða áratug var það ákvarðað að ESB hefði tryggt friðinn síðustu 70 árin? Var það rétt eftir seinni heimsstyrjöldina? Var það í kalda stríðinu? Eða var það eftir að Berlínarmúrinn féll? Þetta stenst ekki neina skoðun, það liggur alveg fyrir hvað hélt frið í álfunni eftir seinni heimsstyrjöld. (Forseti hringir.) Þó að ýmislegt gott megi segja um Evrópusambandið var það ekki það sem hélt friðinn.