148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[22:22]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar spurningar og tek undir með honum hvað varðar mikilvægi þess að umhverfið hér sé með þeim hætti að við hvetjum og að fyrirtæki hafi tækifæri til að vinna í nýsköpun. Eins og ég kom inn á í ræðu minni hafa þessir tveir þættir, annars vegar framlög í Tækniþróunarsjóð og hins vegar hækkun á endurgreiðslu vegna rannsókna- og þróunarverkefna, hækkað um 80% á milli áranna 2015 og 2018. Eitt af þeim verkefnum sem við viljum fara í og kemur fram í fjármálaáætlun er að fara yfir og meta hverju það hefur skilað. Það verður auðvitað að fylgjast með því þegar settir eru verulega auknir fjármunir í kerfi sem er gott og við trúum á og vitum að gerir gagn, við verðum að meta hvaða árangri það hefur skilað til að grundvalla á áframhaldandi ákvarðanatöku.

Í heildina fara um 8,5 milljarðar úr ríkissjóði í þetta nýsköpunarumhverfi. Það eru töluverðir fjármunir og þess vegna hef ég verið á þeirri skoðun, sérstaklega með tilliti til þess að það hefur verið aukið verulega undanfarin ár, að við förum yfir það. Það er auðvitað hluti af nýsköpunarstefnu en það er líka hluti af forgangsröðun. Við þurfum að fara yfir það hvar þessir eru fjármunir í dag. Hvað eru þeir að vinna? Hvað eru þeir að gera? Eru þeir allir á réttum stöðum? Það er ekkert óeðlilegt við það, sérstaklega í kerfi sem hreyfist hratt í svona umhverfi, að litið sé til þess að við viljum kannski færa þessa fjármuni til. Þetta snýst nefnilega líka um forgangsröðun. Það eru ýmis verkefni í ráðuneytinu sem við setjum fjármuni í þannig að ef okkur finnst vanta kraft einhvers staðar er það líka spurning um að forgangsraða.

Ég er alveg til í það verkefni þannig að mér líður vel með þá fjármuni sem er úthlutað í nýsköpunarverkefni í mínu ráðuneyti.