148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[22:34]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna, hún var vissulega ítarleg. Almennt um þetta hef ég þetta að segja: Við leggjum annars vegar mikla áherslu á nýsköpun í stjórnarsáttmála, í fjármálaáætlun, og sömuleiðis umhverfismál. Við höfum almennt, í aðgerðum og markmiðum á öllum sviðum, reynt að tengja í markmið við umhverfislega þáttinn. Það á auðvitað sérstaklega við þegar kemur að nýsköpun. Þess vegna hef ég lagt áherslu á að þessar áherslur í nýsköpun séu í raun tæknilega hlutlausar, þ.e. að ekki eigi að gera upp á milli, heldur sé umhverfið þannig að öll tækni eigi möguleika.

Við höfum vissulega lagt áherslu, hvort sem það er í umræðu eða mögulega í aðgerðum, á rafvæðingu, sérstaklega rafvæðingu samgangna, hvort sem um er að ræða bifreiðar eða í höfnum. En ég segi bara: Ef umhverfið er þannig að allir geti látið hugmyndir sínar verða að veruleika, sótt í sjóði og annað, verða þau skilyrði að vera þannig að hlutleysis sé gætt. Ef það er eftirspurn eða framboð hvað varðar metanol og vetni, og það sem hv. þingmaður kom hér inn á, þá á sú tækni og sú nýsköpun að eiga sama möguleika og hvað varðar rafvæðinguna.