148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[22:36]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Frú forseti. Þetta var svo sem allt hárrétt og gott hjá hæstv. ráðherra. En auðvitað geta stjórnvöld haft ákveðna forystu líka. Með því að kynna sér tæknina og hafa pólitíska sýn er auðvitað hægt að velja eða hafna eða a.m.k. hafa tiltekna forystu í þessum málum. En gott og vel.

Ný og vönduð skýrsla var nýverið lögð fram um þolmörk í ferðaþjónustu og ýmsar leiðir til aðgangsstýringar sem allir vita að verður brýnni með hverju misseri. Mig langar að spyrja: Hvernig rímar ríkisfjármálaáætlunin við þá vinnu sem fram undan er? Ég spyr eiginlega um leið: Er nægilegt rannsóknafé í ferðaþjónustugeiranum? Hvaða frekari úttektir eða skýrslur með tillögum í þessum efnum, um þolmörk aðgangsstýringar, er verið að vinna? Ég hef haft veður af því.

Samkvæmt ríkisfjármálaáætlun á, með leyfi hæstv. forseta, „að endurskoða skipan ferðamála til að auka skilvirkni og yfirsýn stjórnsýslugreinarinnar.“ Það á með öðrum orðum að styrkja og efla stjórnsýslulega þáttinn. Mig langar að spyrja í því sambandi: Hver gætu fyrstu skrefin orðið í þeim efnum?