148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[22:40]
Horfa

Álfheiður Eymarsdóttir (P):

Frú forseti. Í kaflanum um orkumál er því haldið fram að öll raforkuframleiðsla á Íslandi sé af endurnýjanlegum uppruna. Þetta er kannski ekki alveg rétt því að áhöld eru um hvort jarðvarmaveitur framleiði í raun endurnýjanlega orku. Það þarfnast frekari rannsókna og ég sakna þess að sjá lítið um orkurannsóknir. Hvernig sér hæstv. ráðherra fyrir sér eflingu orkurannsókna að teknu tilliti til þess að útgjöld til orkumála lækka um 318 milljónir á þessu fimm ára tímabili sem áætlunin tekur til?

Ég fagna því markmiði að jafna skuli orkukostnað vegna dreifingar raforku og húshitunar á landsvísu en mig langar að spyrja hvernig það verður fjármagnað og framkvæmt.

Það er talað um niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar á köldum svæðum sem er nú þegar til staðar. Ég geri ráð fyrir að þetta þýði að niðurgreiðslur aukist enn frekar. En hver tekur þennan kostnað á sig? Hækkar húshitunarkostnaðurinn hjá þeim sem búa á heitum svæðum til að greiða niður annars staðar? Er jöfnunin hugsuð þannig eða er gert ráð fyrir auknum útgjöldum í áætluninni? Ég gat ekki séð það.

Enn fremur kemur fram að stefnt sé að niðurgreiðslu raforku í dreifbýli og að hún nemi 95–100% árið 2022. Niðurgreiðslan nær bara til dreifingarkostnaðar á raforku. Raforkan sjálf verður áfram á fullu verði í gegnum einkafyrirtæki á mjög undarlegum samkeppnismarkaði fákeppninnar. Taka þá dreifingar- og flutningsaðilar þann kostnað á sig eða verður jöfnunin á kostnað þeirra sem njóta núna hagstæðustu kjara á dreifingu rafmagns?

Mig langar að lokum að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann áætli að auka niðurgreiðslur á raforku til garðyrkjubænda (Forseti hringir.) sem hafa kvartað sáran um árabil. Þeir standa fyrir nýsköpun, jafnvel í ferðaþjónustu, og gætu notið þeirra nýsköpunarstyrkja sem ég veit að hæstv. ráðherra ætlar að auka.