148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[22:45]
Horfa

Álfheiður Eymarsdóttir (P):

Frú forseti. Ég var ekki endilega að vísa í Hellisheiðarvirkjun heldur jarðvarmaveitur yfirleitt. Ég held að ef samtal yrði hafið við starfsfólk og sérfræðinga Orkustofnunar og Orkuseturs kæmi í ljós að þetta er ekki fullrannsakað og það er ekki vitað hvort jarðvarmaveitur yfirleitt séu endurnýjanlegar. Þess vegna þörfnumst við frekari rannsókna.

Mér fannst ég ekki fá full svör um dreifingu á raforku sem á að jafna, þ.e. hver myndi taka þann kostnað á sig, þannig að ég ítreka þá spurningu hvort dreifingar- og flutningsaðilar taki þann kostnað á sig sem þýðir að þá verður minna fjármagn til fjárfestinga sem eru bráðnauðsynlegar í raforkukerfinu öllu eins og við vitum.

Mig langar líka að ítreka aftur sérstaklega spurninguna um garðyrkjubændur. Þeir nota mikla orku. Þeir hafa staðið fyrir mjög mikilli nýsköpun án nokkurra styrkja undanfarin ár. Ég nefni sérstaklega tómatabúið Friðheima sem er að verða toppferðamannastaður á Suðurlandi, mjög skemmtilegur.

Ég spyr aftur hvort ráðherra áætli annaðhvort að niðurgreiða orku til þeirra eða auka nýsköpunarstyrki til garðyrkjubænda.