148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[22:49]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Í dag höfum við rætt um fjármálaáætlun 2019–2023 og nú ræðum við þau málefnasvið sem ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra fer með. Þar eru vissulega ýmis áherslumál, markmið og aðgerðir sem áhugavert væri að ræða, eins og t.d. nýsköpunarstefna, en ég ætla fyrst og fremst að staldra við markmið um samfélagslega sjálfbæra ferðaþjónustu í þessari fyrri ræðu minni.

Ég fagna því sérstaklega að lögð er áhersla á að hærra hlutfall ferðamanna heimsæki valda ferðamannastaði á landsbyggðinni og að með því verði ýtt undir jafnari dreifingu ferðamanna um landið sem lið í því að stuðla að aukinni sátt í samfélaginu í kringum ferðamennskuna. Aðgerðir sem lögð er áhersla á til þess að þetta geti orðið að veruleika eru m.a. stuðningur við uppbyggingu áfangastaða á landsbyggðinni og stuðningur við markaðsstofur landshlutanna. Þetta tel ég hvort tveggja mjög mikilvægt. Þetta markmið kallast jafnframt á við verkefnismarkmið um kynningu og innleiðingu áfangastaðaáætlana í tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun sem nú bíður umræðu á Alþingi.

Markaðsstofum landshlutanna er þar ætlað að vinna að kynningu og innleiðingu áfangastaðaáætlana þótt ábyrgðin sé hjá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Markaðsstofurnar eru komnar á veg með þessa vinnu.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort gert sé ráð fyrir beinum samskiptum eða samningi ráðuneytis og markaðsstofa um verkefnið eða hvort Ferðamálastofu sé ætlað að sjá um þessi samskipti til framtíðar þrátt fyrir fyrirliggjandi frumvarp um breytt hlutverk Ferðamálastofu.