148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[22:58]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar næstu fimm árin og ræðum nú sérstaklega þætti sem snúa að hæstv. ferðamála-, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, ráðherra sem stjórnar ráðuneyti með þessu langa og óþjála heiti. Þetta er sannarlega viðamikið og áhugavert málefnasvið. Ég er með nokkrar spurningar. Við sjáum hvað tíminn leyfir okkur í því.

Undir ráðuneytinu er meðal annars stjórnun og þróun orkumála. Ég vil spyrja um samkeppnisstöðu og færni fyrirtækja á landsbyggðinni í samkeppni við sambærileg fyrirtæki í þéttbýli á sviði raforku; að þeim sé gert kleift að standa jafnfætis öðrum fyrirtækjum á sínu sviði. Vil ég sérstaklega nefna rekstur í Skaftárhreppi í Suðurkjördæmi. Hér er spurt um lagningu á þriggja fasa rafmagni til atvinnurekstrar sem oftast er í smærri kantinum. Þar þurfa menn ýmist að greiða flýtigjald eða leggja í heilmikinn kostnað við að láta breyta þriggja fasa tækjum í eins fasa sem er stundum hreinlega alls ekki hægt.

Ég sé í tillögunni, í þessari þykku bók, að undir þessum lið, undir markmiðum, er rætt um eflingu flutnings- og dreifikerfis raforku (t.d. þrífösun rafmagns) og að tryggja afhendingaröryggi raforku um allt land. Hvernig á að skilja þetta? Hvernig sér hæstv. ráðherra að samkeppnisstaða smáiðnaðar um dreifðar byggðir í landinu sé jöfnuð að þessu leyti? Ég sé þetta ekki undir markmiðssetningu, í 15. kafla, að öðru leyti en ég var að lesa upp.

Ég sé að tíminn er búinn. Ég verð bara að koma aftur.