148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[23:00]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að þessum gæðum og aðgangi að þeim er ekki jafnt skipt eins og staðan er núna. Við höfum oft rætt það í þessum sal, og löngu áður en ég kom hingað inn, en ekki hefur tekist sem skyldi. Ég lagði fram og hef mælt fyrir þingsályktunartillögu um uppbyggingu flutningskerfis raforku sem á heilt yfir að reyna að stuðla að aukinni sátt til að laga það kerfi sem við erum með. Það þarf að tengja betur landshluta, treysta kerfið, orka þarf einfaldlega að vera til staðar fyrir minni og meðalstór fyrirtæki til þess annaðhvort að verða til eða stækka. Það er ekki þannig í dag.

Við tökum hins vegar ekki ákvarðanir um einstaka framkvæmdir. Þar sem deilur hafa staðið yfir í langan tíma hefur það ekki verið þannig að við komum hingað með einstakt mál til að laga það heldur reynum við að horfa á kerfið heilt yfir.

Hvað varðar þriggja fasa rafmagnið er það sömuleiðis rétt hjá hv. þingmanni að ef við gerum ekkert og látum tímann líða þá, eins og ég nefndi áðan, er árið 2036 árið sem það verður komið í lag. Það er spurning hvaða staðir geta beðið eftir því eða hvort sanngjarnt er að ætlast til þess. Þess vegna erum við með þessa vinnu í gangi. Sú vinna gengur vel en við munum þurfa að gera breytingar til að ná raunverulegum árangri í því. Að óbreyttu mun það ekki ganga nema allt of hægt. Þess vegna bíð ég einfaldlega eftir þeirri vinnu og vonast til að hún annaðhvort skili sér fyrri hluta sumars eða í síðasta lagi í haust og að það muni kalla á ákvarðanir í kjölfarið sem ég er mjög til í að taka til að okkur gangi einfaldlega betur með þetta verkefni.