148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[23:03]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir hennar svar. Ég vil jafnframt hvetja ráðherra til að vinna að þessu. Það verður að tryggja að atvinnurekstur alls staðar á landinu búi við viðunandi skilyrði svo að fólk í dreifðum byggðum geti unnið sína atvinnu og rekið sín litlu fyrirtæki án þess að þurfa að borga stórfé fyrir aðgang að sjálfsagðri raforku.

Ef við komum inn á ferðaþjónustuna hefur vægi hennar vaxið með áður óþekktum hætti í okkar þjóðarbúskap. Fjölgun ferðamanna var 24% á árinu 2017 og á þessu ári lítur út fyrir 11,6% fjölgun, eins og segir í skýrslunni, þannig að ferðamenn verði 2,4 milljónir á þessu ári. En hver eru útgjöld til málaflokksins? Á árinu 2016 1,9 milljarðar. Næsta ár 1,7. Sex árum síðar, með litlum breytingum, eru útgjöldin 1,6 milljarðar, þ.e. lægri tala en síðustu tvö ár. Útgjöld til málaflokksins minnka.

Hér ber að taka mið af að tekjur af greininni voru 500 milljarðar 2017 og eru áætlaðar 620 milljarðar árið 2020. Hvað þýðir þetta? Í stuttu máli: Hér fer ekki saman hljóð og mynd. Ríkisstjórnin ætlar ekkert að gefa í með uppbyggingu ferðamannastaða á þessu átta ára tímabili. Í tillögunni er talað um að mikið ójafnvægi sé á milli hraðs vaxtar greinarinnar og uppbyggingar innviða og þjónustu.

Já. Þetta rammar þetta einmitt afskaplega vel inn. Mikið ójafnvægi er á milli hraðs vaxtar og uppbyggingar. En hvað á að gera? Það á ekkert að gera. Hvað hyggjast stjórnvöld gera meðan ferðamannastaðir líða stórum af átroðningi og ferðamenn flæða um allar koppagrundir? Nú eru um 3.600 fyrirtæki starfandi í greininni, í árslok 2017. Hvað ætla stjórnvöld að gera?