148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[23:10]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt sem hv. þingmaður nefndi hvað varðar gróskuna eftir hrun. Okkur tókst að spila mjög vel úr erfiðri stöðu. Það er í miklu samhengi við frumkvöðlagenið sem hv. þingmaður nefndi en sömuleiðis hvernig ýmist stjórnvöld en kannski ekki síður fyrirtæki brugðust við því ástandi.

Það er ýmislegt sem stjórnvöld geta gert til þess að stuðla að gróskumiklu umhverfi. Það er almennt að efla samkeppnishæfni atvinnulífsins. Við erum í þessari áætlun að stíga mjög stórt skref að mínu mati þar sem gert er ráð fyrir að auka fé til að hækka þakið hvað varðar rannsóknir og þróun. Það mun einmitt gagnast stærri fyrirtækjum sem hafa verið að ná upp í þetta og fyrir stærri verkefni. Við höfum heyrt um fyrirtæki sem eru að fara til annarra landa einmitt með slík verkefni af því að umhverfið þar er eftirsóknarverðara en hér. Við erum aðallega að bregðast við því og mér finnst við vera að vissu leyti að taka stöðuna og ákveða hvar við ætlum að vera sterk.

Við erum að setja um 8,5 milljarða í nýsköpunarmál almennt á Íslandi. Það er töluvert af fjármunum. Við höfum aukið verulega við það, sérstaklega í Tækniþróunarsjóð og svo varðandi rannsóknir og þróun. En það er alveg rétt að þegar kakan stækkar er sama tala ekki sama hlutfall af kökunni.

Það er ýmisleg fleira sem við getum gert og ég sé tækifæri í því og hef lengi talað fyrir að eitt af því sem getur eflt samkeppnishæfni okkar er í raun betri aðgangur að erlendum sérfræðingum, hvort sem er með einhverjum skattalegum aðgerðum eða með því að það sé bara (Forseti hringir.) einfaldara fyrir erlenda sérfræðinga að koma hingað með fjölskyldu sína. Þar spilar menntakerfið sömuleiðis inn í. (Forseti hringir.) Þetta er fjölþætt verkefni.