148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[23:15]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég nefni samkeppnissjóðina, vegna þess að hv. þingmaður kom inn á að það þyrfti að efla sjóðina enn frekar, að ef menn taka saman rannsóknir og þróun og svo Tækniþróunarsjóð hafa útgjöldin aukist um 80% til þeirra frá árinu 2013–2018. Þess vegna er eitt verkefnanna nú að taka það út einfaldlega hvaða árangri það hafi skilað og hluti af nýsköpunarstefnu sömuleiðis að fara yfir hvar fjármunirnir liggja, þessir 8,5 milljarðar, og hvort þeir séu allir á réttum stöðum.

Hvað varðar auðlindahagkerfið okkar er sérstaklega ánægjulegt að sjá að við erum með mörg okkar sterkustu fyrirtæki í nýsköpun sem eru sprottin út frá þessum auðlindum okkar. Þess vegna má segja að auðlind geti af sér auðlind.

Verkefnin eru mörg. Ég sé ekki fram á að við munum geta sett punkt aftan við þau. Það er áskorun fyrir önnur lönd líka að fyrirtækin fara annað þegar þau stækka, löndin keppast við að halda þeim heima. Við erum að vinna drög að nýsköpunarstefnu og sú vinna verður í náinni samvinnu við þingið.

En til þess að eyða síðustu 38 sekúndunum í samkeppnismatið er það verkefni sem ég er mjög spennt fyrir. Það er einmitt lagt upp með að það sé unnið með OECD sem hefur getið sér gott orð hvað það varðar. Hugmyndin er að taka einn lagabálk algerlega út og svo í framhaldinu, í hvert sinn sem við vinnum frumvarp og setjum lög, sé það metið út frá þessum þáttum. Þess vegna bind ég vonir við það. Grunur minn er sá að við séum mögulega með meiri hindranir en við áttum okkur á. Þess vegna sé þetta fjárfesting til að skoða ákveðinn lagabálk núna en svo fjárfesting til framtíðar, að við hugum að þessu þegar við setjum lög og reglur. Ég bind miklar vonir við þetta verkefni.