148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[23:22]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Til að taka eitt dæmi er uppbygging innviða auðvitað nauðsynlegur grundvöllur fyrir orkuskipti. Stjórnvöld hafa styrkt ýmis verkefni. Það hefur ásamt öðrum aðgerðum leitt til þess að orkuskipti á landi eru á mikilli siglingu. Ísland er í öðru sæti á eftir Noregi. Okkur gengur nú ágætlega þrátt fyrir að margt sé óunnið.

Við þurfum síðan að koma orkuskiptum að víðar. Næsta áskorun er þessi haftengda starfsemi. Ég er á morgun – bara eitt lítið dæmi sem þó sýnir hvernig þetta allt saman vinnst — að fara að undirrita samning annars vegar við Nýorku og hins vegar við Hafið öndvegissetur. Með þessum samningi sjáum við hvað það er mikil gróska úti í atvinnulífinu hjá alls konar aðilum sem sjá tækifærin í því að ná þessum markmiðum og vinna þetta með okkur.

Þess vegna segi ég: Þessar aðgerðir og þessi markmið, ég er ekki hrædd við að við munum ekki ná þeim. En sem betur fer eru það ekki stjórnvöld ein sem munu vinna alla vinnuna.