148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[23:37]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Hvað varðar orkumálin er ekki um að ræða verulegar breytingar á útgjöldum. Það sem skýrir helst það að talan lækki eru þessar tímabundnu viðbótarfjárveitingar til að mæta þörf fyrir stofnstyrki til hitaveitna vegna lagabreytingar; lögunum var breytt úr 12 árum í 16 sem gerði að verkum að fleiri sveitarfélög, fleiri verkefni, sáu möguleika á að ráðast í framkvæmdir.

Hvað varðar Orkusjóð þá er það eitt af því sem nefnt er í fjármálaáætlun. Líkt og ég hef áður nefnt þá er það auðvitað verkefni núna, þangað til við komum hér inn með fjárlögin, að forgangsraða þeim fjármunum sem við fáum inn á hvert og eitt svið.

Orkusjóður skiptir máli. Hann hefur farið í mjög mörg góð verkefni. Það eru ýmis tækifæri, samspil við umhverfismálin og orkuskiptin eru mikil. Það er einfaldlega hlutverk mitt að forgangsraða þannig að okkur takist að efla hann.