148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[23:45]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Fyrst vil ég segja að ég lofa því að vera með mál leiðsögumanna í sífelldri skoðun, en nefni þó að ég hef ekki breytt um skoðun frá því í fyrra. Aðstæður breytast. Ég segi bara: Það er hægt að taka ýmsar ákvarðanir aðrar til að ná fram markmiðum sem við erum öll sammála um að ná.

Hvað varðar dreifingu ferðamanna þá hef ég áður sagt að allt sem stjórnvöld eru að gera sé til þess að reyna að stuðla að því að dreifa ferðamönnum betur um landið. Það er enn þannig að mikill hluti þeirra kemur hingað. Við þekkjum það svo sem líka frá öðrum löndum, ég hugsa að flest þeirra glími við álíka áskoranir. En náttúran er helsta aðdráttaraflið hér og það er auðvitað bullandi tækifæri fyrir okkur til að fá miklu betri dreifingu ferðamanna um landið allt.

Hvað varðar löggjöf um vindmyllur þá heyrir það í raun undir umhverfisráðuneytið. Við boðum það í stjórnarsáttmálanum að fara í að útbúa löggjöf um vindmyllur. Við finnum fyrir verulega auknum áhuga á uppbyggingu í því. Þetta er eitt af því sem orkustefnan mun taka sérstaklega á.