148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[23:49]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að ferðaþjónustan hefur auðvitað, eins og við öll vitum, bætt lífskjör og lífsgæði landsins alls. Þetta er sjálfsprottin byggðaaðgerð sem er það sem mér þykir einna fallegast við þessa uppbyggingu, sérstaklega fyrir landsbyggðina, þrátt fyrir að við eigum enn mikið inni þar.

Ég get alveg tekið undir með hv. þingmanni og í raun sagt að við höfum að einhverju leyti verið að elta skottið á okkur undanfarin ár. Það er einfaldlega vegna þess að vöxturinn hefur verið það mikill og þetta hefur gerst mjög hratt. Hins vegar finnst mér landsáætlunin um uppbyggingu innviða, sem heyrir undir umhverfisráðuneytið, vera sterk vísbending um, eða í raun staðfesting á því, að við erum farin að horfa til lengri tíma og okkur er að takast að ná yfirsýn og skipulagi á okkar verkefnum.

Stýring, aðgangsstýring, álagsstýring, á okkar helstu ferðamannastaði — það blasir við að við þurfum að fara í það. Það er að mörgu leyti flókið. Ég fer ekkert ofan af því að það sé flókið þrátt að einhverjir kunni að mótmæla mér í því — þá er ég ekki að vísa til hv. þingmanns. Við erum með svæði í eigu ríkisins, svæði í eigu sveitarfélaga, svæði í eigu einstaklinga, svæði sem eru friðlýst og við erum með almannarétt, þar sem því hefur enn ekki verið svarað almennilega hvað má og hvað má ekki. Þegar kemur að stýringu þá er ein leið gjaldtaka. Það er ekki eina leiðin, en það er ein leið. Hvað megum við í raun gera út frá almannarétti?

Það er alveg rétt að við höfum verið að ræða hér gjaldtöku í langan tíma. Ég vil þó bara nefna að við erum þegar með ákveðna gjaldtöku. Við erum með ýmiss konar þjónustugjöld, við erum með gistináttaskatt sem hefur farið úr 100 kr. í 300 kr. Við erum búin að boða að það verði skoðað hvort við færum það yfir til sveitarfélaga. Við erum með bílastæðagjöld. Það er auðvitað ýmislegt í gangi. Þjóðgarðarnir eru í ákveðinni vinnu hjá sér. Það sem ég vil helst sjá er að hvert svæði fyrir sig verði sem sjálfbærast, þá m.a. efnahagslega; einmitt þannig að miðstýring ríkisins verði minni og minni með hverju árinu, að ekki sé þörf á því. Það er það sem ég vil helst sjá.