148. löggjafarþing — 48. fundur,  12. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[23:52]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég er innilega sammála hv. þingmanni þegar kemur að hlutverki stjórnmálamanna hvað þetta varðar. Og ég tek undir það með hv. þingmanni að það skiptir öllu máli að okkur takist að skapa hér umhverfi sem er skýrt og skilvirkt og einfalt. Það er það sem við erum að reyna að vinna að. Þjóðgarðarnir eru með ákveðna gjaldtöku, en eitt er gjaldtaka gjaldtökunnar vegna, til þess að fjármagna ákveðna uppbyggingu, og annað að hún sé notuð til að stýra svæði. Við erum með ákveðin svæði í eigu ríkisins sem einhver nýting er á nú þegar og kallar á stýringu. Þá er einmitt spurning: Hvað eiga stjórnmálamenn að gera? Eiga þeir að vera með mjög skýrar kröfur fyrir hönd ríkisins og almennings? Og það verði síðan einkaframtakið sem tekur við, og gerir það almennt með sóma.