148. löggjafarþing — 48. fundur,  13. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[00:01]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég get ekki tekið undir með hv. þingmanni þegar því er lýst hvernig haldið hefur verið á þessum málaflokki í tíð núverandi dómsmálaráðherra, en það er kannski aðeins önnur umræða. Hér erum við í umræðu um fjármálaáætlunina og þar koma vissulega fram stefnumál ráðherrans. Þegar við horfum á þá fjármuni sem gert er ráð fyrir að renni til málefnasviðsins sem snertir hælisleitendur hefur verulega stór hluti þess fjármagns sem farið hefur til þess málaflokks á undanförnum árum haft með langan málsmeðferðartíma að gera.

Ég verð að segja það sem mína skoðun að það er ekki mikil mannúð í því að draga hælisleitendur eða aðra umsækjendur um alþjóðlega vernd lengi á svörum og haga stjórnsýslunni með þeim hætti að fólk standi jafnvel frammi fyrir brottvísun að liðnum, segjum allt að tveimur árum, eins og átti við í sumum tilvikum. Þannig að ég vil lýsa mikilli ánægju með þann árangur sem fengist hefur í því að stytta málsmeðferðartíma. Það hefur skilað okkur á þann stað að málsmeðferðartíminn fór úr þremur mánuðum, eins og hann stóð á fyrsta ársfjórðungi 2017, niður í um einn mánuð á þriðja ársfjórðungi síðasta árs. Í lok árs var málsmeðferðartíminn kominn niður í þrjá mánuði.

Auðvitað hefur það áhrif á þá fjárbindingu sem er í þessum málaflokki. Ég ætla að fullyrða það hér að ekki er verið að ganga á þau mannréttindi sem hér er haldið fram að verið sé að gera.