148. löggjafarþing — 48. fundur,  13. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[00:15]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég átti hér ágætisumræðu við hv. þingmann um tollgæslumálin sérstaklega fyrir nokkrum dögum síðan. Þar fórum við yfir þá fjölgun sem nú þegar hefur orðið í tollgæslunni. Það er hins vegar mikilvægt þegar við skoðum þá þætti að horfa til þess hvernig löggæslan, landamæravarslan og hrein tollgæsla þurfa að spila saman. Við höfum þurft að auka mjög verulega í og umfram það sem við höfum séð fyrir við afgreiðslu fjárlaga, t.d. í landamæravörslu í Keflavík. Það hefur nánast verið árvisst að við höfum vanmetið þörfina til þess að styðja við starfsemina þar.

Varðandi það sem fram undan er á sviði tollamálanna sérstaklega vil ég bara ítreka það sem fram kom í umræðu okkar um daginn að þar þurfum við að leita leiða til þess að auka skilvirkni og hagkvæmni m.a. með alþjóðlegu samstarfi. Við þurfum að efla tæknibúnað og getu til greiningar vegna þess að það mun skila betri tollgæslu með betri niðurstöðu í tolleftirlitinu og auka sömuleiðis hagkvæmni í rekstrinum. Þess vegna ber að varast að einblína um of á fjölda tollvarða. Hér koma líka til sögunnar önnur úrræði eins og leitarhundar og aðrir slíkir þættir. Staðreyndin er sú að allt umhverfi tollgæslunnar er að gerbreytast. Þar höfum við (Forseti hringir.) á undanförnum árum notið mjög góðs af því að eiga í alþjóðlegu samstarfi og deila reynslu og læra (Forseti hringir.) af öðrum.