148. löggjafarþing — 48. fundur,  13. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[00:28]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég get tiltekið hér nokkur dæmi um með hvaða hætti er verið að fjármagna þessa aðgerðaáætlun. Í fyrsta lagi er rétt tæpum 240 milljónum varið til að bæta við stöðugildum hjá lögreglunni. Sömuleiðis 50 milljónum til héraðssaksóknara. Við setjum um 40 milljónir samkvæmt áætluninni í að auka endurmenntun, bæta rannsóknabúnað og endurskoða verklagsreglur hjá lögreglunni. Sömuleiðis hefur verið ráðinn sérfræðingur í dómsmálaráðuneytið til þess að sjá um framkvæmd þessarar áætlunar. Alls var bætt við um 15 stöðugildum hjá lögregluembættum landsins, þar af sex hér á höfuðborgarsvæðinu, tvö embætti fengu tvö stöðugildi og síðan eitt stöðugildi hjá öðrum embættum. Með því er undirstrikað að áherslurnar séu samræmdar á landsvísu varðandi meðferð kynferðisbrota. Það er sérstakt markmið samkvæmt áætluninni að öll lögregluembættin séu í stakk búin til þess að sinna rannsókn og meðferð þessara mála.

Eins og ég kom aðeins inn á í minni fyrri ræðu er það áhersluatriði í kynferðisbrotamálunum að stytta málsmeðferðartímann, að þau fái forgang í réttarvörslukerfinu, að skilgreina betur hlutverk réttargæslumanns brotaþola og síðast en ekki síst að reyna að nýta betur rafræna stjórnsýslu til þess að koma í veg fyrir tafir og auka skilvirkni í meðferð mála.