148. löggjafarþing — 48. fundur,  13. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[00:55]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég get sagt að ég mun styðja ráðherrann í því, ef lögð er áhersla á að forgangsraða fjármunum til þessa málefnasviðs til að fjölga lögreglumönnum enn frekar. Eins og ég hef rakið hefur þeim fjölgað á undanförnum árum nokkuð. Það er rétt að ekki er jafn langt gengið og gert var ráð fyrir að þyrfti að gera í starfi þessarar tilteknu nefndar. En þó er rétt að benda á að raunfjölgunin er nokkru meiri en um þessa 29 sem ég hef áður minnst á frá 2014 vegna héraðslögreglumanna og afleysingamanna.

Í þessu sambandi skiptir líka máli að lagt er til að farið verði í átak við nýliðun hjá lögreglunni. Í því sambandi er lögð áhersla á að fjölga nemendum í árgangi í lögreglufræðum sem eru eins og fram kom nú kennd á háskólastigi. Gert er ráð fyrir 40 nemendum í hverjum árgangi núna en unnið er að því að fjölga þeim næstu misseri þar sem núverandi fjöldi dugir ekki til að mæta mannaflaþörf lögreglunnar næstu árin. Þarna erum við að vinna svona í grunninum, á þeim enda sem getur hjálpað til við að skila árangri, fyrir utan að tryggja nægilegt fjármagn.

Ég ætla bara að leyfa mér að öðru leyti að taka undir það og fagna því að þau sjónarmið komi fram í umræðunni að það skipti máli að manna lögregluna vel og sinna þeim verkefnum við að halda uppi lögum og reglum í landinu, gæta að umferðaröryggi og öllu sem varðar fjölbreytt svið lögreglunnar, allt frá landamæravörslu til kynferðisbrota sem hér hafa komið á dagskrá. Maður finnur fyrir því þegar maður hittir lögreglumenn á fundum, eins og ég gerði (Forseti hringir.) fyrir stuttu, að þar virðist vera gríðarlega mikið álag á fólki.