148. löggjafarþing — 48. fundur,  13. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[01:21]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég get alveg samsinnt hv. þingmanni um að það þurfi að gá eftir því að sýslumannsembættin séu burðug og í stakk búin til að sinna sínum fjölþættu verkefnum. Ekki síst ættum við að horfa til þess að nýta embættin til að veita þjónustu sem er verið að sinna annars staðar, m.a. á höfuðborgarsvæðinu og héðan út á land. Sýslumannsembættin geta verið kjörin til að taka við slíkum verkefnum.

Varðandi hins vegar það sem spurt var um og snýr að (Gripið fram í.) myndavélunum verð ég að segja alveg eins og er að ég hef margsinnis spurt mig að því í fjármálaráðuneytinu hvernig það megi vera að búnaður sem slíkur sem augljóslega greiðir fyrir sig sjálfan (Forseti hringir.) yfir tíma sé ekki settur upp með þeim rökstuðningi að það sé ekki til fjármagn. Þarna held ég að við hljótum að geta gert betur. Kannski skortir á að fjármálaráðuneytið og dómsmálaráðuneytið nái betur saman um markmið og útfærslu.